Volvo kynnir vörubíla með tvinn-aflkerfi

http://www.fib.is/myndir/Volvohybrid.jpg
Volvo I-SAM tvinn-trukkur.


Aðstoðarforstjóri vörubíladeildar Volvo segir við Auto Motor & Sport að vöruflutningabílar og rútur Volvo verði tvinnbílar í næstu framtíð og að þeir verði 35% sparneytnari en samskonar tæki eru í dag. Bílarnir verði dísil/rafknúnir og auk eldsneytissparnaðar verði þeir hljóðlátari og slit í hemlum verði miklu minna en í hefðbundnum einorkutrukkum.

Aðstoðarforstjórinn; Leif Johansson segir að einmitt nú sé tækifæri fyrir Volvo að flýta þróuninni í átt til samkeppnishæfra tvíorku-vörubíla. Auk góðra áhrifa sem slíkir bílar hafi á umhverfið verði þeir hagkvæmir fyrir eigendur og rekstraraðila.

Tvinn- eða tvíorkuvörubílar Volvo eru, svipað og tvinnfólksbílar sparneytnastir í þéttbýlisakstri þar sem stöðugt er verið að taka af stað, gefa í og hemla á víxl. Þeir verða því heppilegir í t.d. vörudreifingu innanbæjar, sem öskubílar og í t.d. húsabyggingum, húsgrunnum og slíku. Í vinnu af þessu tagi lofar Volvóstjórinn allt að 35% eldsneytissparnaði. Sparnaðurinn næst ekki síst vegna þess að þegar hemlað er, breytist hemlunarorkan í rafmagn sem hleðst inn á geyma bílsins og nýtist síðan til að knýja hann áfram.

Tvíorkukerfið hjá Volvo sem  er á loka-tilrauna- og þróunarstigi kallast I-SAM. Það er í stuttu máli þannig að við hina hefðbundnu dísilvél er skrúfaður stór rafmótor sem bæði ræsir dísilvélina, knýr bílinn áfram ýmist einn eða ásamt dísilvélinni og hleður upp straumi á geymana í bílnum. Þessi rafmótor/rafall virkar einnig sem hemill þegar hemlað er. Hemlunin felst í því að þá framleiðir rafmótorinn rafmagn sem fer inn á geymana og nýtist síðar til að knýja bílinn áfram. Hann er nægilega öflugur til að koma hlöðnum bílnum á ferð úr kyrrstöðu án þess dísilvélin fari í gang til að hjálpa til. Þetta þýðir að miklu minni hávaði berst frá slíkum bíl en hefðbundnum einorkuvörubíl.

Volvo á samhliða tilraunum með tvíorkuvörubíla þátt í tilraunum og þróunarvinnu með nýa gerð af rafgeymum sem nefnast Effpower. Effpower geymarnir eru byggðir á hinum hefðbundnu og þrautreyndu blý/sýrugeymum sem eru í sérhverjum bíl og hafa verið alla tíð í bílum. En með nýrri tækni sem ekki er útskýrð í fréttinni frá Volvo um þessa bíla, þá hefur tekist að auka afl geymanna fjórfalt og lækka framleiðslukostnaðinn verulega.