Volvo og Apple í samvinnu
Volvo Car Group (Volvo Cars) og Apple Inc. (Apple) hafa byrjað samvinnu. Hún snýst um það að Apple stýrikerfi og hugbúnaður verður í tölvubúnaði nýrra Volvo fólksbíla burtséð frá því hvar í heiminum sem þeir verða framleiddir og seldir. Í frétt frá Volvo segir að um tímamótaviðburð sé að ræða: Hér gangi í eina sæng framsæknasti bílaframleiðandi heimsins og frægasta tæknifyrirtæki veraldar.
Sá tölvu- og hugbúnaður sem út úr þessu samstarfi kemur kallast Apple CarPlay og allt notagildi og notendaviðmót hans er það sama og í Apple-græjunum, iPad, iPhone og iPod og snertiskjárinn verður í fyrirferðarmiklum miðjustokknum og mælaborðinu.
Fyrsti Volvóinn með Apple-notendaviðmótinu verður nýjasta kynslóð XC90 jeppans en hann er væntanlegur á markað austan- og vestanhafs síðar á þessu ári.