Volvo og Uber vinna saman að nýjum bíl
Volvo Cars og Uber boða nú náið samstarf sín í milli um sjálfakandi leigubíla. Volvo leggur til nýjan bíl sem byggður verður á svonefndri SPA-grunnplötu sem er grunnur hins nýja Volvo XC-90 og fleiri Volvóbíla.
Þessi samvinna Uber og Volvo snýst um að þróa bíla og tækni fyrir nýja kynslóð sjálfkeyrandi bíla – bíla sem nýst geta almenningi sem ökumannslausir Uber-leigubílar. Við hönnun og framleiðslu sjálfra bílanna verður þannig gert ráð fyrir rými fyrir þann tæknibúnað sem þarf að vera í ökumannslausum leigubílum.
Meginhugmyndin að baki Uber er sú að venjulegir bíleigendur ganga til samstarf við Uber um að leiguakstur á sínum eigin bílum. Ný tækni og nýir bílar sem tilbúnir eru að taka við tæknibúnaðinum gætu þá í framtíðinni nýst og skapað eigendum þeirra tekjur án þess að eigandinn þurfi endilega að sitja undir stýri og aka sjálfur. Nýi bíllinn verður samkvæmt samkomulaginu hannaður og þróaður í náinni samvinnu tæknifólks Volvo og Uber.
Fyrstu 100 Volvo/Uber bílarnir verða fyrst prófaðir í Gautaborg, heimaborg Volvo, en á næsta ári verða flotar þessara nýju bíla einnig prófaðir í Pittsburg í grennd við aðsetur Uber í Bandaríkjunum, í Kína og víðar.