Volvo rafmagnast til fulls
Sænsk-kínverski bílaframleiðandinn Volvo hefur verið í heimsfjölmiðlum undanfarið fyrir þá ákvörðun að rafmagna alla sína framleiðslubíla frá og með árinu 2019. Þaðan í frá verða allir nýir Volvo bílar rafknúnir – sumir hreinir rafbílar en aðrir búnir bensín- eða dísilrafstöðvum.
Ákvörðun stjórnenda Volvo þýðir þannig ekki að brunahreyflum verði algerlega úthýst úr Volvobílum. Brunahreyflar verða í þeim flestum en þeir munu í fæstum tilfellum knýja drifhjól bílanna, heldur framleiða rafstraum fyrir knýmótorana. Allir Volvo bílar verða þannig rafknúnir og allir með rafhleðslutengli auðvitað.
-Með þessu viljum við koma til móts við almenna bílakaupendur enda hefur eftirspurn þeirra eftir rafknúnum bílum vaxið gríðarlega undanfarið, segir Håkan Samuelsson forstjóri Volvo. -Við viljum koma til móts við væntingar þeirra og óskir strax í dag og í framtíðinni, bætti hann við í samtali við fjölmiðla.
Samkvæmt áætlunum Volvo munu fimm nýir bílar koma á markað 2019 til 2021. Þrír þessara bíla verða í boði sem hreinir rafbílar undir vörumerki Volvo en tveir verða aflmiklir og hraðskreiðir bílar undir sérmerkinu Polestar. En allar þessar fimm nýju gerðir verða í boði sem blendingsbílar með dísil- eða bensínrafstöðvum og ýmist með há- eða lágspennu - (48 Volta) rafkerfi.
Håkan Samuelsson sagði á blaðamannafundi að þessi ákvörðun væri upphafið að endalokum brunahreyflanna í bílum og að hjá Volvo væri stefnt að því að framleiðsla og afhending nýju rafvæddu bílanna nái milljón bíla markinu fyrir árið 2025 og þá hafi niðurstaða kolefnisjöfnunnar hjá Volvo náð núllinu.
-SÁ