Volvo sópar áfram til sín verðlaunum
Volvo heldur áfram að sópa til sín verðlaunum en nú hefur Volvo jeppinn XC60 verið útnefndur heimsbíll ársins 2018. Þetta var kunngert á hinni árlegu bílasýningu í New York sem hófst um páskana. Volvo XC40 var valinn bíll ársins í Evrópu á bílasýningunni sem haldin var fyrir skemmstu í Genf í Sviss. Þessar útnefningar eru því mikil viðurkenning fyrir framleiðslu Volvo.
Volvo CX60 hafði betur í þessari útnefningu eftir slag við Mazda CX-5 sem kom í öðru sæti. Range Rover Velar fékk viðurkenningu fyrir hönnun ársins.
.Á bílasýningunni í New York var Nissan Leaf útnefndur heimsins grænbíll ársins og Audi A8 fékk viðurkenninguna sem lúxusbíll ársins. Afkasta mesti bíll ársins 2018 er BMW M5.
Forsvarsmenn Volvo voru að vonum í sjöunda himni með þessar viðurkenningar en þessar tegundir bíla frá fyrirtækinu hafa selst vel víðar um heim. Håkan Samuelsson, forstjóri Volvo, tók á móti sérstakri viðurkenningu í New York sem persónuleiki ársins.