Vonbrigði hjá Frökkum með nýsköpun í bílasmíði
30.11.2005
Renault Modus tv. og Peugeot 1007.
Franski bílaiðnaðurinn hefur átt góðu gengi að fagna í Evrópu undanfarin ár. Franskir bílar hafa verið í fararbroddi hvað varðar öryggi og þar eru nýjustu smábílarnir Renault Modus og Peugeot 1007 ekki undantekning – báðir fimm stjörnu bílar og sá síðarnefndi með eina hæstu stigagjöf nokkru sinni í árekstrarprófum EuroNCAP.
Báðir þessir nýju smábílar eru afar vel og frumlega hannaðir með tilliti til notagildis og þæginda í umgengni. Það eru því frönskum bílaiðnaði vonbrigði að þeir skuli ekki seljast betur en raun ber vitni. Salan hefur verið langt undir því sem vænst var.
Þegar Renault kynnti fyrst Modus vorið 2004 var þess sérstaklega getið að hann yrði byggður í verksmiðju Renault á Spáni þar sem árleg afkastageta hennar væri 300 þúsund bílar. Louis Schweitzer þáverandi forstjóri Renault vildi þó ekki leggja höfuð sitt að veði fyrir svo mikilli sölu en sagði að Modus væri ný gerð af bíl og erfitt væri að spá um gengi hans. Modus er hábyggður lítill fjölnotabíll, byggður á sama grunni og Renault Clio og Nissan Micra. Þrátt fyrir frábæra hönnun og mikið öryggi þessa bíls hefur salan verið miklu síðri en reikna mátti með og í þrígang hefur ferið dregið úr framleiðslunni sem á þessu ári verður einungis 123 þúsund stykki.
Peugeot hefur gengið lítið skár með sinn óhefðbundna og frumlega og ekki síst örugga Peugeot 1007. Upphaflegar áætlanir gerðu ráð fyrir því að á þessu ári yrðu byggðir 130 þúsund bílar en verða vart fleiri en 70 þúsund úr þessu. Peugeot 1007 er byggður á sama grunni og Citroën C2, en hefur rennihurðir í stað hefðbundinna dyra.