Vörubílstjórar mótmæla enn
Frá skipulögðum mótmælaakstri á Sæbraut í fyrradag.
Vörubílstjórar sem undanfarið hafa ástundað mótmælaaðgerðir gegn háu eldsneytisverði, þungaskatti og hvíldartímareglum með því að loka samgönguleiðum, lokuðu Reykjanesbraut við Bústaðaveg um hálf áttaleytið í morgun. Brautinni var lokað til beggja átta. Sömu sögu var að segja á Kringlumýrarbraut við Miklubraut. Þar lokuðu bílstjórar einnig veginum.
Talsvert umferðaröngþveiti varð af aðgerðunum í morgun og komust margir ekki til vinnu í tæka tíð vegna þeirra. Bílstjórar létu af aðgerðum sínum upp úr kl. átta.
Lögreglan fylgdist með aðgerðunum á báðum stöðum og myndaði það sem fram fór.