Vöruflutningabílar verða knúnir vetni
Tímamót í orkuskiptum urðu í gær þegar fimm fyrirtæki skrifuðu undir yfirlýsingu um að kaupa stóra vöruflutningabíla sem knúnir verða með vetni. Þeir fyrstu verða afhentir að ári.
Íslensk nýorka ehf., sem er í eigu ríkisins og stóru orkufyrirtækjana, hafði umsjón með samningum um innflutning 20 trukka frá þýska bílaframleiðandanum MAN. Búið er að selja helming þeirra og þykja þeir sambærilegir dísiltrukkunum, segir Jón Björn Skúlason framkvæmdastjóri Íslenskrar nýorku ehf.:
„Við erum með sama áfyllingartíma. Við erum með sömu drægni meira og minna. Þannig að það er raunverulega verið að uppfylla þær þarfir sem að hefðbundinn þungaflutningaiðnaður þarf.“
Orka náttúrunnar er eini framleiðandi vetnis í landinu og því þótti við hæfi að fyrstu kaupendurnir skrifuðu undir viljayfirlýsinguna í Hellisheiðavirkjun í dag. Áætlað er að árlega spari 20 vetnistrukkar bruna um 700 þúsund lítra af dísilolíu.