VW að kaupa Suzuki?
Ef marka má fréttir í breskum fjölmiðlum er að ganga saman með Volkswagen og Suzuki Motor Corporation í Japan um kaup VW á Suzuki. Sé þetta rétt verður Suzuki ellefta vörumerki Volkswagen samsteypunnar.
Fjölmiðlar og fréttastofur í Evrópu, t.d. Reuters greindu í septembermánuði sl. frá því að viðræður stæðu yfir milli fulltrúa VW og Suzuki en fréttirnar fengust ekki staðfestar. Talsmenn Volkswagen hafa verið þöglir um málið en breska bílatímaritið Car segir að samningar hafi nú náðst og tilkynningar um kaup VW á Suzuki sé að vænta fyrir áramótin. Til hafi staðið að tilkynna um viðskiptin á bílasýningunni í Tokyo í október sl. en á síðustu stundu hafi verið hætt við það þar sem einhverjir endar hafi enn verið lausir í samningunum. Nú sé hins vegar nánast allt klappað og klárt. Aðeins sé eftir að finna réttu dagsetninguna til að tilkynna um viðskiptin.
Suzuki hefur sterka stöðu á heimamarkaðinum, Japan, og víðar í Asíu sem framleiðandi smábíla. Sú mikla reynsla sem Suzuki hefur í framleiðslu smábíla á efalaust etir að nýtast Volkswagen vel í framleiðslu lítilla borgarbíla. Þá hlýtur það að teljast mjög eftirsóknarvert fyrir Volkswagen að fá aðgang að víðtæku og vel virku söluneti Suzuki í Asíu, og á sama hátt fyrir Suzuki að fá aðgang að vel virku söluneti Volkswagen í Ameríku, en einmitt þar hefur Suzuki átt erfitt uppdráttar.