VW að yfirtaka Proton í Malasíu

http://www.fib.is/myndir/Proton.jpg

Proton frá Malasíu.

Bílaframleiðslufyrirtækið Proton í Malasíu hefur um árabil átt í fjárhagsörðugleikum og þar með erfiðleikum með að þróa nýjar gerðir bíla og bæta þær sem fyrir eru. Til að bæta þar úr hefur Proton leitað eftir samvinnu við stórfyrirtæki í bílaframleiðslu og nú er samkomulag við Volkswagen í sjónmáli að því er segir í frá í Auto Motor & Sport.

Forsvarsmenn Proton hafa átt viðræður við nokkra bílaframleiðendur en þær hafa flestar siglt í strand og er ástæðan sögð sú að Proton er í ríkiseigu og stjórnmálamenn hafa þar haft of mikil ítök. En nú mun hafa náðst samkomulag um að Volkswagen eignast 51% hlut í Proton og mun því ráða ferðinni í framtíðinni.

Gangi þetta eftir er ljóst að Volkswagen nær frekari fótfestu í Asíulöndum þar sem Proton er nokkuð þekkt bílamerki. En ef til vill hefur þó Lotus verið það agn sem VW einkum sóttist eftir, en þetta þekkta breska sportbílamerki hefur um nokkurt skeið verið í eigu Proton. Lotus hefur lengi verið framarlega í hönnun og þróun sportbíla, síðustu ár og áratugi hefur fyrirtækið verið framarlega í notkun léttmálma í smíði bílanna.