VW ætti að borga evrópskum neytendum skaðabætur
-Volkswagen Group ætti að eigin frumkvæði að bjóða evrópskum eigendum VW bíla með útblásturssvindlbúnaði samskonar skaðabætur og boðnar verða þeim bandarísku, segir Elzbieta Bienkowska yfirmaður (ígildi ráðherra) iðnaðarmála hjá Evrópusambandinu við dagblaðið Welt am Sonntag á sunnudag.
Automotive News greinir frá því að gengið verði endanlega frá 10,3 milljarða dollara samkomulagi milli Volkswagen og bandarískra yfirvalda í næstu viku í útblásturssvindlmálinu. Auk beinharðra peningagreiðslna felst í samkomulagi því sem nú liggur fyrir, að VW-Group kaupi til baka tæplega 500 þúsund dísilfólksbíla og greiði auk þess eigendum upphæð sem að meðaltali er í kring um 5 þúsund dollarar.
Bienkowska sagði það óásættanlegt ef Volkswagen ætlaði að gera öðruvísi eða verr við evrópska viðskiptavini sína en þá bandarísku bara af því að lagaumhverfi væri ekki hið sama. –Það er ekki til þess fallið að endurheimta glatað traust að koma öðruvísi fram við evrópska netytendur en þá bandarísku, sagði hún við Welt am Sonntag.
Talsmenn hafa gefið það út að í Evrópu verði þeir bílar sem um ræðir lagfærðir, m.a. með því að fjarlægja úr þeim hinn ólöglega hugbúnað. Ekki stæði til að greiða eigendum bílanna skaðabætur enda hefðu þeir ekki beðið nokkurn skaða.