VW bjallan sjötug í gær

The image “http://www.fib.is/myndir/VW30-1937.jpg” cannot be displayed, because it contains errors.
Ein frumgerða Ferdinants Porsche að KDF-bílnum.

Í gær voru upp á dag 70 ár síðan stofnað var fyrirtæki í Þýskalandi Adolfs Hitler. Tilgangur fyrirtækisins var sá að framleiða bíl sem löngu síðar varð þekktasti bíll veraldarinnar – Volkswagen bjallan.

Þegar fyrirtækið var stofnað voru liðin þrjú ár frá því að austurríski verkfræðiprófessorinn Ferdinant Porsche hófst handa að beiðni Adolfs Hitler hæstráðanda Þýskalands að hanna svonefndan gleðikraftsbíl eða KDF-bíl fyrir hið þýska fólk. KDF var skammstöfun orðanna Kraft durch Freude eða gleðikraftur.

Fyrstu frumgerðir hins nýja KDF-bíls voru þarna sýndar almenningi að viðstöddum Hitler sjálfum og hans helstu samstarfsmönnum og þarna var því heitið að sérhver fjölskylda gæti eignast þennan ágæta bíl sem átti að kosta 990 ríkismörk og launþegar áttu m.a. að geta sparað fyrir bílnum með því að safna sérstökum sparimerkjum. Það gerðist hins vegar ekki í það sinnið og raunveuleg fjöldaframleiðsla Fólksvagnsins hófst ekki fyrr en að Hitler dauðum og þúsundáraríki hans hrundu. Og það voru Bretar sem settu bílinn í framleiðslu.

Adolf Hitler lagði hornstein að verksmiðjunni þar sem byggja átti Fólksvagninn. Ekki aðeins sjálfur bíllinn heldur öll þessi bílvæðingaráætlun Hitlers var hluti mikils allsherjarprógramms um líf og frístundaiðkun almennings í þúsundáraríkinu. Þetta allsherjarprógramm var kallað Kraft durch Freude eða gleðikraftur. Verksmiðjan var reist á bakka árinnar Aller í Neðra-Saxlandi og nefndist KDF-borg og í kringum hana heill bær með íbúðarhúsum og aðstöðu fyrir starfsfólk verksmiðjunnar.

Við hönnun Bjöllunnar studdist Porsche við tækni frá tékkneskum bíl; Tatra V-570. Undirvagninn var svipaður en hann var í stórum dráttum mikið rör með þverbitum. Fremst á rörið var framhjólastellið skrúfað en aftast gírkassi, drif, hjólabúnaður og vél. Þar ofan á var svo hin sérstæða yfirbygging svo skrúfuð.
http://www.fib.is/myndir/VWmilljon.jpg
Framleiðsla Bjöllunnar náði ekki að komast á neitt skrið áður en stríðið braust út árið 1939. Þau tæpu tvö ár frá stofnun KDF-fyrirtækisins og fram í stríðsbyrjun tókst einungis að framleiða um 700 Fólksvagna. Þá var verksmiðjan í þessum nýja bæ, sem síðar fékk nafnið Wolfsburg tekin undir hergagnaframleiðslu og voru eftir það byggðir einskonar her-jepplingar á undirvögnum Fólksvagnsins og flugvélar voru einnig settar saman í Wolfsburg. En það voru ekki frjálsir vinnuglaðir og vel launaðir Þjóðverjar sem við þetta störfuðu heldur mannskapur sem tekinn var til fanga hingað og þangað á hernámssvæðum Nazista, sem og stríðsfangar.

Stríðinu lauk loks vorið 1945 og að frumkvæði bresku herstjórnarinnar í Saxlandi var verksmiðjan, sem meira og minna var sundursprengd í loftárásum Bandamanna, sett í gang, - fyrst til þess að setja saman nokkra Fólksvagna handa yfirmönnum breska gersins á svæðinu og síðan fyrir póstþjónustu. Alls voru þetta 20 þúsund bílar. Þeim sem fengu Fólksvagnana í hendur líkaði undantekningarlítið svo vel við bílana að eftirspurn jókst mjög hratt. http://www.fib.is/myndir/VWefnahagsundur.jpg

Næsta sögulega skrefið í sögu Bjöllunnar var svo það að breska herstjórnin fól verksmiðjuna og framleiðsluna í hendur nýrri héraðsstjórn Neðra-Saxlands árið 1949. Þá er efnahagsuppbygging V. Þýskalands að komast á fullt skrið og framleiðslan orðin mikilvægur hlekkur í þeirri atburðarás allri. Héraðsstjórnin breytti svo Volkswagen í hlutafélag árið 1960 með helmingseignaraðild einstaklinga.

Og eftirspurnin jókst og jókst, ekki bara í Þýskalandi einu, heldur í allri Evrópu og í Ameríku einnig. Nýjar verksmiðjur risu í öðrum þýskum borgum eins og Kassel, Hannover, Emden og Salzgitter og strax árið 1953 hófst framleiðsla á Bjöllunni í Brasilíu. Framleiðslu á henni var hætt í Þýskalandi í árslok 1974 en hélt áfram í Brasilíu og Mexíkó framyfir síðustu aldamót.