VW eignast Karmann
Stjórn Volkswagen ákvað á fundi sínum á föstudag að kaupa Karmann bílasmiðjuna í Osnabrück í Neðra-Saxlandi. Ætlunin mun vera að framleiða þar m.a. nýjan sportbíl, VW Karmann BlueSport , sem myndin er af. Þúsund manns munu starfa hjá Karmann.
Hin söguríka bílasmiðja, Karmann, hefur átt í rekstrarerfiðleikum undanfarin ár og síðasta hálfa árið liðið undan verkefnaskorti. Reksturinn hefur alla tíð byggst á ýmissi sérframleiðslu og bílabreytingum fyrir ýmsa bílaframleiðendur og eftir að síðasti Mercedes CLK sportbíllinn rann af færiböndum Karmanns sl. sumar, hefur engin framleiðsla verið í gangi. Karmann hefur frá stríðslokum verið í eigu tveggja fjölskyldna. Blómatími fyrirtækisins var frá byrjun sjötta áratugarins til þess áttunda þegar fyrirtækið breytti í stórum stíl Volkswagen bjöllum í opna blæjubíla og byggði einnig bíla sem hannaðir voru innanhúss og uppbyggðir úr Volkswagen-hlutum. Frægastur þessara eigin bíla Karmanns var Karmann Ghia sem nú er mjög verðmætur safngripur. Í þeirri heimskreppu sem nú stendur yfir, hefur Karmann haft lítið að gera. Gjaldþrot var því eina lausnin en Volkswagen kaupir þrotabúið af skiptastjóra.
Segja má að út frá sögunni sé yfirtaka Volkswagen eðlileg. Staðsetningin er það sömuleiðis því að ekki er langt milli höfuðstöðva Volkswagen í Wolfsburg og Osnabrück. Búist er við því að fyrsta verkeni Karmanns verði framleiðsla á nýjum sportbíl sem kallaður er VW Blue Sport. Hann verður með tveggja lítra þverstæðri vél aftan við sætin tvö og með drifi á afturhjólum. Einnig telja bílafjölmiðlar að samhliða verði framleiddar opnar útgáfur (blæjubílar) af VW Golf. Volkswagen stjórnin reiknar með því að koma framleiðslu í Karmann verksmiðjunni í fullan gang fyrir árið 2014. Sjálf samsetningarverksmiðja Karmann er tiltölulega ný og vel búin en sérstaklega vönduð og góð þykir lökkunardeildin sem byggð vavr árið 2003. Hún er talin ein sú besta í evrópskum bílaiðnaði.