VW eini framleiðandinn sem fegraði mengunargildi
Þýska umferðarstofan hefur eftir rannsóknir sínar undanfarna mánuði komist að þeirri niðurstöðu að Volkswagen sé eini bílaframleiðandinn sem beinlínis setti búnað í dísilfólksbíla til þess að falsa og fegra niðurstöður mengunarmælinga á bílunum.
Hin þýska umferðarstofa rannsakaði margar tegundir og gerðir dísilfólksbíla og þetta er niðurstaðan. Volkswagen reyndist eina tegundin með útbúnað sem skynjaði þegar mengunarmæling hófst og virkjaði þá hreinsunar- og mengunarvarnarbúnað bílanna sem annars var óvirkur alla jafna.
Vissulega leiddu rannsóknirnar í ljós mismikil frávik frá þeim mengunargildum sem er að finna í gerðarviðurkenningar- og skráningarskjölum ýmissa bíla en þau reyndust allstaðar vera innan viðmiðunarmarka, nema í Volkswagenbílunum. VW virtist því vera eini framleiðandinn sem vísvitandi reyndi að fegra mengunargildin. Þetta kemur fram í Reutersfrétt.
Skýrsla sem greinir nákvæmlega frá rannsókninni verður gerð opinber undir lok mánaðarins.