VW með nýjan pallbíl á teikniborðinu

http://www.fib.is/myndir/VW-Taro.jpg
VW Taro- sem í raun var Toyota HiLux með VW merki í grillinu.

Litlir vörubílar- pallbílar með eins tonns burðargetu eru vinsælir og góð söluvara hjá mörgum bílaframleiðendum, eins og td. Toyota með HiLux, Mitsubishi með L200 o.fl. Nú berast fregnir frá Volkswagen að þar hyggist menn koma aftur inn á markaðinn með pallbíl í þessari stærð. Bíllinn verður framleiddur í sendibílaverksmiðju VW í Hannover og víðar.

Volkswagen hefur vissulega verið með pallbíla í framleiðslulínum sínu áður. Gamla rúgbrauðið fékkst sem pallbíll með ein- og tvöföldu húsi og Caravellan sömuleiðis (VW Crafter) og fyrir um áratug var til pallbíll sem hét VW Taro sem raunar var Toyota HiLux með Volkswagen grilli. Síðan þá hafa menn spáð og spekúlerað í hvernig best væri að keppa við bæði Toyota og Mitsubishi í eins tons pallbílageiranum og nú liggur ákvörðun fyrir – nýr VW pallbíll kemur á markaðinn 2008. Vinnuheiti hans er RPU sem stendur fyrir Robust Pickup. VW RPU verður byggður í Hannover sem fyrr er sagt en einnig í Brasilíu eða Argentínu og S. Afríku.

VW RPU verður heimsbíll (eins allsstaðar). Af fregnum sem allar eru óstaðfestar má ráða að bíllinn verður trúlega með afturhjóladrifi eða fjórhjóladrifi svipað og Mitsubishi L200, Toyota HiLux og aðrir sambærilegir.  Þegar framleiðslan hefst á síðari hluta næsta árs verður framleiðslu á VW Crafter hætt í Hannover verksmiðju VW og hún flutt til Mercedes Benz í Dusseldorf og Ludwigsfeld. Þar verður VW Crafter byggður samhliða Mercedes Benz Sprinter.