VW og BMW í leigubílabransann?

Ole Harms forstjóri Moia tv. og Matthias Müller, forstjóri Volkswagen Group.
Ole Harms forstjóri Moia tv. og Matthias Müller, forstjóri Volkswagen Group.

Bæði Volkswagen Group og BMW hafa stofnað dótturfélög sem keppa eiga við hið bandaríska Uber á leigubílamarkaði í borgum með sjálfakandi bílum. Fyrirtæki VW heitir Moia og hyggst nota sérbyggða rafbíla. Hjá BMW hefjast prófanir á 40 sjálfakandi rafknúnum leigubílum þegar á komandi ári í heimaborginni Munchen. Þótt þessir bílar séu sjálfkeyrandi verða þjálfaðir tilraunabílstjórar í bílunum á reynslutímanum sem gripið geta inn ef eitthvað fer úrskeiðis.

Fyrrnefnt félag VW; Moia, er hið þrettánda í röð dótturfélaga Volkswagen og áfangi á vegferð VW til rafvæddra samgangna og nýtækni, sem m.a. er nú sem óðast að geta af sér sjálfkeyrandi bíla. Framkvæmdastjóri Moia heitir Ole Harms. Hann segir við Bloomberg að markmiðið sé að Moia verði innan 10 ára eitt þriggja stærstu fyrirtækja heims í rekstri leigubíla sem notendur kalla til sín gegnum snjallsímaapp og greiða síðan fyrir þjónustuna gegn um símann. -Ennþá ferðumst við á sama hátt um borgirnar og fyrir 20-30 árum. Það vantar sárlega nýja samgöngumáta sem breyta ástandi umferðarinnar til hins betra, sagði Harms. Það ætlaði Moia að gera bæði með liprum 6-8 manna smárútum á föstum leiðum og með smábílum sem einstaklingar geta kallað í eftir þörfum.

Volkswagen leggur mjög mikla fjármuni undir í þetta verkefni enda eru miklar breytingar fyrirsjáanlegar á umferð, bílnotkun og eignarhaldi bíla og hverskonar tækni- og fjarskiptabúnaði. Nafnið Moia á að endurspegla þessar breytingar og tíðarandann en það er fengið úr hinum forna tungumáli Sanskrít og þýðir töfrar.

Klaus Buettner framkvæmdastjóri sjálfkeyrsluverkefnis BMW segir við Automotive News að mjög hraður vöxtur Uber hafi örvað BMW mjög til dáða á sviði sjálfkeyrslutækni og bættrar þjónustu við neytendur. Sjálfkeyrsluverkefnið sé í raun beint framhald verkefna eins Uber og einnig útleigu á rafknúnum borgarbílum sem fyrirfinnast víða, t.d. Zipcar og Car2go og eigið verkefni BMW í Seattle sem nefnist ReachNow.

Tony Douglas hjá BMW segir að viðtökur í Seattle við ReachNow bílunum þar sem fyrir á markaði voru fjórir aðrir aðilar, hafi verið þannig að 14 þúsund manns hafi skráð sig sem notendur á fyrstu fjórum dögum starfseminnar. Það sýni að tímabært sé að taka næsta skref sem séu sjálfakandi bílar sem í eðli sínu sé sama starfsemi og hjá Uber og snjall-leigubílafélögunum með því eina fráviki að tæknibúnaður ekur bílnum en ekki manneskja.