VW Passat hlýtur Auto1 viðurkenninguna
VW Passat Variant.
Volkswagen Passat er sá bíll sem flestir Evrópubúar vilja eiga og aka, ef marka má viðurkenninguna Auto 1. Það eru hið þýska bílablað AutoBild og 23 systurblöð þess sem gefin eru út um alla Evrópu sem veita þessa árlegu viðurkenningu eftir skoðanakönnun meðal lesenda sinna. Dr. Wolfgang Bernhard stjórnarformaður Volkswagen tók við viðurkenningunni á bílasýningunni í Genf í gærkvöldi. Þetta er í annað sinn sem VW Passat hlýtur viðurkenninguna Auto 1. Hitt skiptið var árið 1997.
Þeir bílar sem komust í úrslit í vali á Auto 1 eða besta bílnum að þessu sinni voru: VW Passat 943 stig. BMW 3 916 stig. Audi Q7 870 stig. Mercedes Benz S 826 stig. Porsche Cayman 813 stig. Honda Civic 712 stig. Seat Leon 685 stig. Alfa Romeo 159, 675 stig. Renault Clio 600 stig. Citroën C6 435 stig. Mazda 5 413 stig og Toyota Aygo 248 stig.
Veitt voru sérstök nýsköpunarverðlaun fyrir bestu tæknilegu nýjungina og hlaut Citroen þau fyrir sína virku vélarhlíf á Citroen C6. Í henni er loftpúði til að verja þá fótgangandi sem verða kunna fyrir bílnum sem best. Búnaðurinn er þannig að skynjarar sem nema högg á vélarhlífina blása upp 65 millimetra þykkan loftpúða á 45 millisekúndum. Búnaðurinn dregur stórlega úr líkum á alvarlegum slysum á þeim sem kunna að verða fyrir bílnum.