VW Polo er bíll ársins 2010
Dómnefnd 59 evrópskra bílablaðamanna frá 23 löndum hefur valið Volkswagen Polo bíl ársins 2010. Mjög litlu munar í stigum tailð á bíl ársins og þeim sem lenti í öðru sæti; Toyota IQ.
Hinn nýi VW Polo er að mati dómnefndarinnar mjög skynsamlegur bíll og góður með afar fáa veika punkta, sparneytinn og traustur í rekstri. Val á bíl ársins var að þessu sinni undir merkjum skynsemi og sparneytni. Toyota, þriggja til fjögurra manna örbíllinn sem varð nr. 2 er það líka, en það sem fleytti honum næstum í sigursæti er hin mjög svo hugvitssamlega innrétting sem gerir það mögulegt að koma þremur fullorðnum og auk þess einu barni fyrir í þetta örsmáum bíl. En á heildina litið fór valið fram undir merkjum skynsemi og sparneytni og með notagildi í fyrirrúmi. Úrslitabílarnir voru að heita má allir þesskonar bílar og keppnin óvenju jöfn. Þannig fékk Toyota IQ samtals 337 stig en Pólóinn einungis tíu stigum meira í efsta sætið.
Eftir að forval hafði farið fram voru að venju sjö bílar eftir í úrslitum þeir röðuðust síðan upp á eftir Pólóinum (347 stig) og Toyota IQ (337 stig) þannig að Opel Astra varð nr. 3 (231 stig), Skoda Yeti nr. 4 (158 stig), Mercedes-Benz E-klass nr. 5 (155 stig), Peugeot 3008 nr. 6 (144 stig) og Citroen C3 Picasso nr. 7 (113 stig).