VW Routan kominn fram
VW Routan.
Þann 17. janúar sl. sögðum við frá nýjum fjölnotabíl, Routan frá Volkswagen, sem væntanlegur væri á Bandaríkjamarkað. Nú hefur bíllinn verið frumsýndur á bílasýningunni í Chicago sem opnuð var í gær.
Þeir sem vonuðust til að bíllinn yrði eitthvað líkur mjög frumlegum hugmyndarbíl sem Volkswagen sýndi árið 2001 í Detroit hafa orðið fyrir vonbrigðum því að nýi bíllinn er ekki nokkurn skapaðan hlut líkur honum.
Routan er framleiddur í verksmiðju Chrysler í Kanada og er systurbíll Chrysler (Dodge/Plymouth) Voyager. Til að gefa honum Volkswagen-svip er grillið líkt því sem er á VW Passat auk fleiri útlitsatriða.
Staðalmótorinn í Routan er 3,8 lítra 197 ha. V6 bensínvél. Fáanleg er fjögurra lítra V6 251 hestafls bensínvél en við báðar er 6 gíra sjálfskipting. Routan verður eingöngu seldur í Ameríku og mun ekki standa Evrópumönnum til boða.