VW segir upp 20 þúsund manns
Hugmyndabíll Volkswagen, Jepplingurinn A. Heimsfumsýning á honum verður í Berlín á næstunni. A er tilbúinn í framleiðslu og áætlað er að hann komi á markað eftir um eitt og hálft ár. Hann var myndaður á Íslandi í síðasta mánuði og fór myndatakan mjög leynt - ekki einusinni umboðsaðilinn Hekla fékk neitt að vita af myndatökunni fyrr en eftir á.
Næstu þrjú árin verður fækkað í starfsmannahópi Volkswagen um 20 þúsund manns. Með þessu er ætlunin að spara 260 milljarða ísl. króna í rekstrinum. Forstjóri VW, Bernd Pischetsrieder tilkynnti þetta á aðalfundi VW nýlega.
Innan VW samsteypunnar eru auk Volkswagen framleiddir bílar af Audi, Seat, Skoda, Lamborghini og Bentley –gerðum. Hjá samsteypunni starfa alls um 345 þúsund manns og er allt á fullum dampi nema hjá Volkswagen. Volkswagen vörumerkið höfðar til breiðasta kaupendahópsins en innan hans hefur borið á þeirri skoðun með réttu eða röngu að bílarnir séu sumir hverjir ekki í takti við tímann og salan í einstökum VW gerðum ekki gengið sem skyldi. Einkum er það lúxusfólksvagninn Phaeton sem gengið hefur erfiðlega með. Phaeton var mjög dýr í þróun og var meðal annars reist ný og sérlega glæsileg samsetningarverksmiðja fyrir Phaeton í Dresden. En allt kom fyrir ekki og fékk þessi lúxusbíll dræmar móttökur ekki síst á Bandaríkjamarkaði sem átti að verða aðal markaðurinn fyrir bílinn. FÍB blaðið var nýlega í Þýskalandi og hitti þar nokkra millistjórnendur Volkswagen og spurði þá sérstaklega um Phaeton. Þeir sögðu að eftirspurn eftir bílnum hefði aukist verulega í seinni tíð og væru það einkum ættarhöfðingjar og auðugir kaupsýslumenn í Arabaheiminum sem keyptu Phaeton og létu sérbyggja bílana fyrir sig. Verksmiðjan í Dresden væri nú ágætlega nýtt því að í henni byggja menn nú auk Phaeton annan og kannski þekktari lúxusbíl – Bentley.
En neyðin kennir víst naktri konu að spinna og hjá Volkswagen eru að birtast nýjar gerðir sem tilbúnar eru í framleiðslu. Af nýjum gerðum sem þegar eru komnar fram á sjónarsviðið eru t.d. sportbílarnir EOS og Scirocco sem verða með hinni nýju og einstöku TSI dísilvél. Sú er einungis 1,4 lítra en hvorki meira né minna en 170 hestöfl. Þá er VW þessa dagana að kynna nýtt fjórhjóladrif sem þegar fæst m.a. í nýju gerðinni af Passat, jepplingur er á leiðinni o.fl.