VW sólarorkuver í USA
Volkswagen hefur sett upp og tekið í notkun stórt sólarorkuver við Passat verksmiðju sína í Chattanooga í Tennesseeríki. Orkuverið teygir sig yfir 13 hektara svæði og þar eru samtengdar 33.600 sólarsellusamstæður. Árleg raforkuframleiðsla versins er áætluð 13.100 megaWattstundir.
Sólarorkuverið þótt stórt sé dugar þó ekki til meira en að uppfylla 12,5 prósent af orkuþörf bílaverksmiðjunnar þegar hún er keyrð á fullum afköstum. Ef hinsvegar engin framleiðsla er í gangi, þá fullnægir sólarorkuverið orkuþörf verksmiðjunnar.
Samkvæmt frétt frá Volkswagen er þetta stærsta sólarorkuver bílaverksmiðju í heiminum. Volkswagen á reyndar nokkur önnur sólarorkuver en þetta nýa í Tennessee er hið stærsta þeirra. Það er hluti milljarðs dollara fjárfestinga og endurbóta á verksmiðjunni í Chattanooga, en þær endurbætur hafa skapað fimm þúsund ný störf.