VW þegar byrjað að undirbúa næsta Dakar rall

http://www.fib.is/myndir/Giniel-deVilliers.jpghttp://www.fib.is/myndir/Tina_Thorner.jpg
Giniel de Villiers og Tina Thörner. Urðu í öðru sæti í Dakarrallinu síðast.

Eftir velgengnina í síðasta Dakar ralli ætlar Volkswagen að veðja enn sterkar á keppnina næsta ár. Þegar er búið að ákveða að taka þátt í næstu keppni sem samkvæmt hefðinni hefst á síðasta degi ársins.
Þau Giniel de Villiers og aðstoðarökumaðurinn, hin sænska Tina Thörner sem kepptu á Volkswagen hlutu annað sætið síðast. En nú eru Volkswagenmenn komnir á bragðið og vilja hreinan og kláran sigur í næsta sinn. Því er búið að ákveða að taka þátt næst og undirbúningurinn er strax hafinn og siguráætlunin klár.

Næstu fimm mánuði fer fram mikil tækni- og þróunarvinna og nýr keppnisbíll verður byggður. Sá hefur hlotið vinnuheitið Race Touareg 2. Þar næst taka við miklar prófanir á nýja keppnisbílnum og verður m.a. keppt á honum í torfæruröllum hingað og þangað. Dakar rallið er mjög erfitt og reynir gríðarlega á ökumenn og bílana sjálfa. Ökumennirnir verða að vera í toppþjálfun og bílarnir nógu öflugir og sterkir til að þola tæplega 10 þúsund km akstur á útopnu yfir eyðimerkur og vegleysur í hálfan mánuð nánast samfleytt án þess að bila umtalsvert.