Wankelvélin í frysti
Mazda hefur hætt framleiðslu á Wankelvélum og bílum með þeim. Wankelvélar komu fyrst fram í þýska bílnum NSU RO-80 á síðari helmingi síðustu aldar. Mazda eignaðist síðan einkaleyfi á þessum vélum og síðasti bíllinn sem framleiddur hefur verið í heiminum með þessari merku gerð bílvéla, er sportbíllinn RX-8. Það eru einkum hertar kröfur um mengun og útblástur í Evrópu sem valda þessu. Mazda leggur þó vélina ekki endanlega á hilluna, heldur hyggjast menn þar skoða möguleika hennar betur árið 2017.
Það er tímaritið Automotive News sem greinir frá þessu og segir að Mazda hafi hætt framleiðslunni á RX-8 í síðasta mánuði. Þeir óseldu bílar sem til eru verði nú seldir á útsölu sem lýkur í árslok. Eitthvað ætti að vera til af bílunum á lagerum hingað og þangað því að salan hefur farið mjög minnkandi undanfarna mánuði og ár. Í Evrópu eru þó varla margir til, því að sala á bílnum datt niður undir núllið þegar í fyrra því að þá stóðst hann ekki nýjar mengunarkröfur Evrópusambandsins. Á síðasta ári seldust samtals einungis 1.134 eintök sem var 49 prósent minna en seldist í heiminum af RX-8 árið 2009. RX-8 kom fyrst fram árið 2003. Best gekk salan árið 2004 en þá seldust samtals 23.690 eintök
Wankelmótorarnir hafa verið dýrari í framleiðslu hjá Mazda en hefðbundnir stimplamótorar, meðal annars vegna þess hve upplagið var alltaf lítið. En talsmenn Mazda segja að þeim fylgi líka ákveðin vandamál sem séu einkum þau hversu mikilli smurolíu þeir brenna og hversu bensínfrekir þeir séu og loks hve viðhaldsfrekir og bilanagjarnir þeir séu. Því hafi verið ákveðið að leggja þá á ís í bili og leggja alla áherslu á nýju mótorlínuna sem kallast Skyactive. Það eru hefðbundnir stimplamótorar með góða orkunýtingu og litla eyðslu.
Wankelmótorarnir verða þó ekki lagðir endanlega á hilluna að því sem þróunarstjóri Mazda segir við Automotive News. Áætlanir geri ráð fyrir nýjum sportbíl, arftaka RX-8 sem koma muni á markað síðla árs 2016 eða í ársbyrjun 2017. Þróunarstjórinn segir ekkert um það hverskonar bíll þetta verði en aðrar heimildir tímaritsins herma að í honum verði Wankelmótor sem drífi afturhjólin en rafmótor framhjólin.