Wiesmann sportbíll nr. 500 boðinn upp á Netinu

http://www.fib.is/myndir/Wiesmann-1.jpg
Þetta er Wiesmann nr. 500.

Um þessar mundir eru 12 ár síðan þýsku bræðurnir Friedhelm og Martin Wiesmann hófu að byggja sportbíla. Á þessum 12 árum hefur bílasmiðja þeirra bræðra sem er sú minnsta í Þýskalandi, lokið við að byggja alls 500 bíla. Eftirspurn eftir framleiðslunni er næg og vaxandi og reikna bræðurnir með því að að byggja fleiri bíla á þessu ári en nokkru sinni áður, eða 100 stykki. Bíll númer 500 var fullbyggður þann 31. mars sl.  Hann er nú til sölu á uppboði á heimasíðu fyrirtækisins www.wiesmann-auto-sport.de og er byrjunarupphæðin 124.800 evrur. Uppboðið stendur til miðnættis 15. júní nk.

http://www.fib.is/myndir/Wiesman2.jpg

Sá sem eignast bílinn mun fá í hendur ansi snotran tveggja sæta sportbíl með opnanlegum toppi. Hann verður sprautaður í tveimur litum og með öllum þeim búnaði sem í boði er og með árituðum nöfnum þeirra Wiesmann bræðra. Friedhelm Wiesmann segir við þýska fjölmiðla að hugsanlegur hagnaður af uppboðinu muni ekki lenda í vösum þeirra bræðra eða hjá fyrirtækinu heldur verður hann gefinn þeirri góðgerðastofnun sem kaupandinn sjálfur tilnefnir.