Gríðarleg eftirspurn er eftir rafmagnsútgáfunni af Volkswagen Golf
Gríðarleg eftirspurn er eftir rafmagnsútgáfunni af Volkswagen Golf og hafa framleiðendur bílsins vart undan. Starfsfólki í bílaverksmiðjunni í Dresden hefur verið fjölgað til muna og þarf að tvöfalda framleiðsluna til að mæta pöntunum í þennan bíl.
Framleiðslan á síðustu mánuðum hefur aukist til muna og á næstu vikum og mánuðum verða framleiddir á þriðja þúsund bíla á mánuði.
Það sem einkum veldur auknum vinsældum á bílnum er að drægni bílsins jókst til muna. Var í fyrstu rúmlega 100 km en er nú kominn í um 200 km að sögn framleiðenda. Ennfremur stækkuðu rafhlöðurnar úr 24,4 kWh í 35,8 kWh og með því er talið að e-Golf geti komist allt að 265 km á fullri hleðslu.
Þess má geta að e-Golf bíllinn er söluhæsti rafmagnsbíllinn í Noregi. Framleiðendur bílsins eru að vonum í skýjunum með þróunina og líta björtum augum til nýja ársins.