Volkswagen ID-4 bíll ársins á Íslandi 2021
Volkswagen ID-4 hlaut Stálstýrið en tilkynnt var í kvöld um val á bíli ársins 2021 í húsakynnum Blaðamannafélags Íslands. Það er Bandalag íslenskra bílablaðamanna sem stendur að þessu kjöri. Bílablaðamenn frá bilablogg.is, Fréttablaðinu, Morgunblaðinu, FÍB blaðinu, Viðskiptablaðinu og visir.is tóku þátt í lokaprófinu.
Ekki fór fram val á bíl ársins í fyrra sökum kórónaveirufaraldursins. Í kjölfarið var tekinn ákvörðun um að færa valið aftur til vormánaða. 12 bílar sem komust í úrtslit voru verðlaunaðir og sá sem flest stigin hlaut Stálstýrið eftirsótta.
BÍBB hefur staðið fyrir valinu á Bíl ársins frá árinu 2001 og er notast við stigakerfi í tólf flokkum líkt og hjá öðrum þjóðum. Gefin eru stig frá 0 og upp í 10, er því hámarks stigafjöldi hvers bíls 120 frá hverjum dómara. Lokaprófanir fóru fram 26. maí og eftir hana var ljóst hvaða bíll hlaut nafnbótina bíll ársins og um leið Stálstýrið eftirsótta.
Í flokki minni fólksbíla komust tveir rafbílar í úrslit ásamt einum sem knúinn er af jarðefnaeldsneyti. Bílarnir voru: Opel Corsa E, Toyota Yaris, Honda ES. Opel Corsa fékk flest stigin í þessum flokki, alls 768 stig.
Í flokki stærri fólksbíla komust Volkswagen ID-3, Peugeot e-2008 og Opel Mokka í úrslit. Þar af voru tveir rafbílar og einn sem gengur fyrir jarðefnaeldsneyti.Volkswagen ID-3 fékk flest stigin í þessum flokki, alls 780 stig.
Í flokki minni jepplinga/jeppa komust tveir rafbílar í úrslit og einn tengiltvinnbíll. Bílarnir í úrslitum í flokknum voru: MG EHS PHEV, Skota Enyaq EV og Volkswagen ID-4. Í þessum flokki fékk Volkswagen ID-4 flest stig, alls 838 stig.
Í flokki stærri jepplinga/jeppa voru engir rafbílar. Þar komust í úrslit Ford Explorer, Kia Sorento og Land Rover Defender. Í þessum flokki fékk LR Defender flest stig, alls 776 stig.
Þess má geta að Volkswagen ID-4 hefur vakið verðskulduga athygli en bílinn var útnefndur „heimsbíll ársins“ (WCOTY) fyrir árið 2021. Bíllinn varð hlutskarpastur í vali rúmlega 90 blaðamanna frá 24 löndum.
Mynd: Jóhann Ingi Magnússon frá bílaumboðinu Heklu tekur hér við Stálstýrinu úr hendi Finns Thorlacius.