Yfir 50 króna munur á eldsneytisverði á milli bensínstöðva
Bensín og dísilolía hefur hækkað í verði á heimsmarkaði síðustu vikuna á sama tíma og íslenska krónan hefur aðeins gefið eftir gagnvart Bandaríkjadal. Bensín og dísilolía hér á landi hefur hækkað hjá flestum olíusölum um fjórar til sex krónur í september. Undantekningin er Costco en þar hefur ekki komið til eldsneytishækkunar það sem af er september.
Mikill verðmunur er á hæsta og lægsta verði á höfuðborgarsvæðinu. Dýrasti 95 oktan E10 bensínlítrinn er seldur á þjónustustöðvum N1 og kostar 324.90 krónur. Ódýrast er að kaupa bensín fyrir félagsmenn Costco en þar kostar lítrinn 274.70 krónur. Munurinn þarna á milli er 50.20 krónur á lítra. Á svokölluðum ódýrum stöðvum hefðbundnu olíufélaganna er hægt að kaupa bensínlítrann á frá 293.20 krónur til 293.90 krónur. Þarna munar minnst 18.50 krónum á ódýrasta og næst ódýrasta lítranum. Svo eru það dreifðu byggðirnar sem í flestum tilvikum hafa lítið annað val en að kaupa dýrasta eldsneytið.
Verðmunurinn á dýrasta og ódýrasta dísillítranum er heldur minni eða 40.50 krónur. Sem fyrr er dýrast að kaupa hjá N1 og þar kostar dísilolíulítri 318.20 krónur en 277.70 krónur hjá Costco. Bensínlítrinn hjá N1 er dýrari en dísilolían hjá félaginu en því er öfugt farið hjá Costco þar sem bensínlítrinn er ódýrari.
Fyrir þá neytendur sem hafa val um breytileg verð á eldsneyti líkt og á höfuðborgarsvæðinu þá margborgar sig að aka að ódýrustu dælunni.