Yfirtaka Fiat á Chrysler á lokastigi
Hin sögulega yfirtaka Fiat á Ítalíu á Chrysler bílaframleiðandanum í Detroit er nú aftur komin á fulla ferð eftir að hæstiréttur Bandaríkjanna hafnaði nú í morgun tímabundnu lögbanni á samrunann. Þar með er samruni Fiat og Chrysler orðinn að veruleika.
Lögbannið fyrrnefnda var sett að kröfu þriggja lífeyrissjóða í Indiana sem héldu því fram að í samningaferlinu, sem ríkisstjórn Obama forseta hafði samþykkt, fælist mismunun milli fjárfesta og misnotkun á þeim 700 milljörðum dollara sem bandaríska ríkið hefur sett í allt heila dæmið. Auk úrskurðar hæstaréttar nú í morgun felldi gjaldþrotadómstóll í New York þann úrskurð að uppsögn sölusamninga Chryslers við 789 söluaðila stæðist lög.
Bandarískir fjölmiðlar segja að þar með geti Chrysler í Bandaríkjunum og 38,000 starfsmenn fyrirtækisins loks snúið sér að því að hanna bíla nýja framtíðarbíla, endurræsa verksmiðjur og endurnýja samninga við undirframleiðendur. Þá geti Sergio Marchionne forstjóri Fiat loks undið að því bráðan bug að ráða forstjóra og stjórnendur. Ekki veiti af því að undanfarið hafi allt verið stopp, engin framleiðsla né sala farið fram og tapið af þeim sökum numið 100 milljón dollurum á dag að mati stjórnskipaðs þrotabústjóra Chryslers.
Þær tafir sem orðið hafa á samrunanum voru farnar að taka verulega á taugar stjórnenda Fiat og í gærmorgun hótuðu þeir því að ef dómstólar myndu ekki höggva á þá hnúta sem uppi voru fyrir næstkomandi mánudag, myndi Fiat hætta við allt saman. Bandaríska ríkisstjórnin lýsti í morgun yfir feginleika sínum yfir úrskurði hæstaréttar og gjaldþrotadómstólsins í New York og sagði að nú gæti sameiningin haldið áfram og Chrysler gengið í endurnýjun lífdaga sem ábatasamur og samkeppnishæfur bílaframleiðandi. Búist er við að endanlegur samningur um nýtt stórfyrirtæki í bílaiðnaðinum á heimsvísu verði tilbúinn síðar í dag.