Ýkjuauglýsingar olíufélaga bannaðar
Neytendastofa hefur bannað Olíuverslun Íslands og N1 að auglýsa fimm króna afslátt af dæluverði eldsneytis. Auglýsingarnar hafa verið birtar undanfarið. Í þeim er sagt að handhafar viðskiptakorta félaganna fái fimm króna afslátt frá því verði sem eldsneytið kostar á stöðvum félaganna. Það eru hins vegar nokkrar ýkjur því að afslátturinn er einungis þrjár krónur. Tvær krónurnar sem út af standa eru söfnunarpunktar. Hjá Olís eru þeir vildarpunktar hjá Icelandair en safnkortspunktar hjá N1.
Neytendastofa hefur með ákvörðun sinni nr. 29/2009 og nr. 30/2009 bannað þessar fimm króna afsláttarauglýsingar N1 og Olíss. Í frétt um málið segir Neytendastofa að söfnun fríðinda sé ekki hægt að leggja til jafns við afslátt í krónum og því geti fyrirtækin ekki auglýst fimm króna afslátt af verði þegar dæluverð lækkar eingöngu um þrjár krónur en viðskiptavinurinn safnar punktum að verðmæti tveggja króna að auki. Neytendastofa hefur því bannað auglýsingarnar þar sem þær eru villandi og til þess fallnar að hafa áhrif á ákvörðun neytenda um að eiga viðskipti.