Ýmsar endurbætur standa fyrir dyrum í Hvalfjarðargöngum
Ráðist hefur verið í ýmsar endurbætur í Hvalfjarðargöngum upp á síðkastið en Vegagerðin tók við rekstri ganganna í október 2018. Á næstunni stendur til að að skipta út stikum fyrir LED kantljós, og setja upp nýtt myndbandsvöktunarkerfi.
Frá því að Vegagerðin tók við göngunum 1. október 2018 hefur smám saman verið unnið að ýmsum endurbótum. Sumt sem farið var í strax leiddi beint af yfirtökunni en annað voru endurbætur sem þótti ástæða til að fara í eftir því sem Vegagerðarstarfsmenn kynntust göngunum betur.
Hvalfjarðargöng voru opnuð 1998 og eru því komin yfir tvítugt, því er ekki óeðlilegt að komið hafi verið að endurnýjun á einhverjum búnaði. Vegagerðin hefur reynslu af mörgum öðrum göngum á landinu þó að umferðin þar sé aðeins um tíundi hluti umferðar í Hvalfjarðargöngum. Sú reynsla hefur nýst við endurbætur í Hvalfirði. Eftir því sem starfsmenn kynntust göngunum betur kom í ljós ýmislegt sem mátti breyta. Ákveðið var að skoða málin afar vel áður en hafist væri handa.
Það helsta sem stendur til að gera í göngunum á næstunni má nefna að vegríð verða endurbætt. Farið hefur verið yfir stjórnkerfið og vöktun. Virkni hefur aðeins verið breytt og kerfið endurnýjað. Meðal annars var bætt við mengunarnema og trekknema með hliðsjón af reynslu í nýrri göngum. Endurbætur verða gerðar á ljósleiðarakerfi.
Í vetur hefur verið farið með sérstakan götusóp með kraftmikilli ryksugu í göngin vikulega. Sópnum er ekið fram og til baka og báðar akreinar sópaðar. Samkvæmt vigt bílsins nær hann upp meira en hálfu tonni í hvert sinn. Þá verða sett kantljós í stað stika. Ákveðið hefur verið að setja LED ljós með 25m fresti á kantana sem leiða umferðina vel. Slík ljós eru í Norðfjarðargöngum og hefur þeim verið mjög vel tekið. Sett verður nýtt myndbandsvöktunarkerfi.
Fleira hefur verið gert til að bæta ástandið í göngunum, annað hvort til að auðvelda rekstur eða auka þjónustu. Hæðarslár hafa verið endurnýjaðar, fleiri merki sett utan við göng og ýmislegt fleira. Stöðugt er verið að skoða atriði með það fyrir augum að betrumbæta búnað ganganna, létta eftirlit og rekstur, og bæta þjónustu við vegfarendur.