Zhonghua M1
12.04.2005
Zhonghua M1
Umtalsverð og ört vaxandi bílaframleiðsla á sér stað í Kína og lengi hefur verið orðrómur um að brátt muni kínverjar leita að fótfestu á bílamarkaði í Evrópu og Bandaríkjunum. Nú er þetta að gerast. Nú berjast starfsmenn MG Rover í Bretlandi fyrir lífi fyrirtækisins og eina vonin er sú að ríkisstjórnin veiti þeim ríkisábyrgð fyrir risastóru láni sem er forsenda þess að kínverska bílaverksmiðjan SAIC komi Rover til bjargar og tryggi framtíðina.
En nú er komið á daginn að önnur kínversk bílaverksmiðja ætlar að gera innrás á Þýskalandsmarkaðinn í haust með bíl af efri millistærð. Sá bíll heitir Zhonghua M1.
Evrópskir bílaframleiðendur eru að sögn Berlingske Tidende skjálfandi á beinunum yfir þessari innrás sem í vændum er, minnugir japönsku innrásarinnar um miðjan sjöunda áratuginn þegar ódýrir bílar en jafnframt traustir og endingargóðir náðu á skömmum tíma tryggri markaðshlutdeild. Kínverjarnir hafa að sögn blaðsins skoðað vel hvernig japanir markaðssettu bíla sína í upphafi þeirrar innrásar og vilja óðir og uppvægir endurtaka leikinn.
Núna, eins og á sjöunda áratuginum ganga manna í milli miklar sögur af kínverskum bílum sem handónýtum hrísgrjónabaukum sem hanga saman á lyginni og með burðarbita úr bambusstöngum og gömlum Kínareiðhjólum. Tæknin sem þeir eru byggðir á sé úrelt og þessutan séu bílarnir léleg eftirlíking af þessari úreltu tækni og af úreltri hönnun. Þetta muni koma fljótt í ljós þegar hrísgrjónabaukarnir koma og fara að etja kappi við evrópska gæðabíla eins og VW, Ford, Opel, Renault og alla hina.
En það styttist óðum í það gerist og hægt verði að bera saman kínverska bíla við evrópska af sanngirni, því byrjað verður að selja Zonghua í Þýskalandi í september nk. og byrjað er að taka niður pantanir á kínverskum jeppa sem kallast Landwind í Hollandi. Innrásin er þegar hafin.
Zonghua M1 er stór fólksbíll, heilir 4,9 m að lengd. Hann er ansi evrópskur í útliti enda er hann hannaður hjá ítalska fyrirtækinu Giugiaro sem líka hannar bíla fyrir Lancia, Alfa Romeo o.fl. Tæknin í bílnum er heldur ekkert bílakirkjugarðsdót, heldur er hún frá Mitsubishi, enda hefur Brilliance verksmiðjan sem smíðar Zonghua lengi framleitt Mitsubishi pallbíla og jeppa fyrir Kínamarkað. Vélarnar í Zonghua eru þannig 2,0 og 2,4 l V6 vélar sem smíðaðar eru með leyfi frá Mitsubishi. En það skyldi þó ekki vera líka að þeir Brilliance-menn eigi sitthvað í pokahorninu varðandi góða aksturseiginleika því að þeir framleiða einmitt BMW 3 og 5 línuna fyrir heimamarkaðinn, Kína. Maður freistast því til að álykta sem svo að fyrst Þjóðverjarnir telja þá hæfa til að framleiða BMW handa Kínverjum, skyldu þeir þá ekki líka vera hæfir til að framleiða Zonghua fyrir Þjóðverja?