Kia Soul EV
Kia Soul er væntanlegur á skandinavískan bílamarkað með haustinu sem rafbíll. Kia Soul hefur verið á Bandaríkjamarkaði um skeið og þar var honum fyrst og fremst ætlað að höfða til yngra fólks. Sú markaðsherferð tókst þannig til að ungir bílakaupendur litu varla við bílnum en hinir eldri keyptu hann hins vegar í kippum. Kia Soul hefur fram að þessu ekki verið á Evrópumarkaði en kemur með haustinu sem rafmagnsbíllinn Kia Soul EV.
Soul er hannaður út frá notagildinu fyrst og fremst og er eiginlega kassalaga og hábyggður. Allur umgangur er auðveldur og útsýni úr honum ágætt. Sænskir og danskir bílablaðamenn sem óku bílnum nýlega segja aksturseiginleikana ágæta, hann sé ágætlega sprækur í upptakinu og hljóðlátur með afbrigðum. Vinnslan sé mjög svipuð og í rafbílunum Nissan Leaf og Renault Zoe en drægið aðeins meira, eða um 200 km á hleðslunni.
Af hálfu framleiðandans er fullyrt að rafhlöðurnar séu líþíumgeymar af nýjustu gerð sem séu bæði léttari en jafnframt afkastameiri en slíkar hafa verið til þessa. Í þeim felist engin bylting, heldur séu þær afrakstur þróunar.
Ekkert verð hefur verið gefið út á bílnum en skandinavíska fjölmiðlafólkið telur líklegt að það verði svipað og er á Nisssan Leaf eða um 5,5 milljónir ísl. kr.