Skrjóðar á háu verði
Á uppboði sem fram fór 26. júlí sl. á bílum úr eigu Rainiers gamla fursta í Mónakó Fékkst ótrúlega hátt verð fyrir flestalla bílana sem í boði voru. Blaðamanni norska blaðsins Verdens Gang sem var viðstaddur uppboðið fannst með ólíkindum hversu mikið bjóðendur voru tilbúnir til að greiða fyrir bíla sem voru ekkert annað en druslur, þótt vissulega hafi verið nokkuð merkilegir bílar innan um og saman við. Verðið hafi verið í einu orði sagt geggjað.
Bílarnir voru úr safni furstans í Mónakó en norski blaðamaðurinn segir þeir hafi að stærstum hluta verið samansafn af skrjóðum sem geymdir hafa verið í neðanjarðar-bílageymslu um árabil og lítið eða ekkert verið hugsað um. Vart hafi því verið hægt að tala um bílasafn, heldur miklu fremur um samansafn skrjóða sem hans furstalega hátign, Albert prins II. hafi viljað losa sig við.
„Nokkrir bílanna voru gamlir og fínir, nokkrir voru bara gamlir, nokkrir voru sígildir og fínir og enn aðrir voru hvorugt. Þá voru innanum þetta bílar sem voru það nýir að þeir hafa ekkert söfnunargildi og sumir auk þess í miður góðu standi, skrifar blaðamaðurinn.
Af athyglisverðum bílum nefnir hann Berliet frá 1907 enda þótt ekkert væri vitað um aldur yfirbyggingarinnar. Sömuleiðis hafi Panhard & Levassor frá 1913 verið athyglisverður, sem og Peugeot 172 frá 1924 sem vel mætti gera vel upp. Hins vegar hafi VW bjalla, Citroen CX, þrír Dodge bílar, lúinn Chevrolet Camaro og GMC hertrukkur ekki verið þess virði að leggja á sig ferðalag suður að Miðjarðarhafi til að líta augum. Fjöldi slíkra bíla sé jafnan boðinn til sölu á Netinu bæði í betra standi og fyrir mun hagstæðara verð en bílarnir fóru á í Mónakó.
Af bílum sem blaðamanninum þóttu áhugaverðir nefnir hann Honda Civic frá 1976 og NSU Prinz Sport sem hinn ítalski Bertone hannaði á sínum tíma. Samkvæmt uppboðslistanum var áætlað verð á NSU bílnum 8-12 þúsund evrur en hann var sleginn hæstbjóðanda á 25 þúsund evrur. Það hafi verið algert ofurverð því að bíllinn tengdist ekki einusinni Rainer fursta hið minnsta. Lögregla hafði nefnilega fyrir löngu síðan fjarlægt bílinn af bílastæði í furstadæminu eftir að hafa staðið þar mjög lengi án þess að hans væri vitjað, og flutt í bílageymsluna þar sem hann hefur staðið síðan.
Meðal uppboðsgripa var Mercedes 500 SEC AMG sérpantaður 1983 af furstanum sjálfum. Mjög sambærilegur bíll var nýlega seldur í Noregi á rúmar 2,3 milljónir ísl kr. Þessi var hins vegar sleginn á 17,4 milljónir ísl. kr. Þá var 1302 VW bjalla -Ameríkuútgáfa með eldsneytisinnsprautun, slegin á 3,3 milljónir ísl. króna sem er amk þrefalt gangverð góðra slíkra bíla bæði austan- og vestanhafs.