Vonbrigði með Fisker
Endurkoma bílahönnuðarins fræga, Henriks Fiskers í bílahönnunargeirann hefur valdið mörgum bílablaðamanninum vonbrigðum. Á bílasýningunni í Los Angeles var afhjúpaður al-bandarískur ofurbíll, Galpin Rocket, sem Fisker hannaði fyrir bílasölukeðjuna Galpin. Bíllinn reyndist vera breyttur bíll af nýjustu kynslóð Ford Mustang og þykir ýmsum lítið til hans koma. Hann sé ljótur og hallærislegur og afturför frá hinum nýja Mustang svo ekki sé nú talað um Shelby útgáfu þessa sama bíls.
Galpin Rocket segja gagnrýnendur að líti út eins og einhverskonar skepna sem búið sé að fóðra á sterum, hann sé eins og skvapfeitur, uppblásinn offitusjúklingur. Talsmaður Galpin bílasölukeðjunnar, stærsta smásöluaðila Ford bíla í Bandaríkjunum, Beau Boeckmann að nafni, er þessu auðvitað ósammála og segist stórhrifinn af hönnun Fiskers, mannsins sem hannaði flottustu BMW og Aston Martin bílana nokkru sinni.
Fram kemur að Henrik Fisker hafi ekki verið lengi að hanna útlitið á koltrefjayfirbyggingunni á bílinn. Hann hafi verið skotfljótur að teikna upp útlitið en síðan liðu einungis tveir mánuðir þar til búið var að byggja nokkur sýni- og sölueintök, Galpin Rocket verður í boði á sölustöðum Galpin á Los Angeles svæðinu og nokkrum öðrum völdum stöðum. Vélin er fimm lítra V8 vél með Wipple-túrbínu, 725 hö. Verðið á eintakinu er frá rúmlega 100 þúsund dollurum.